Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar, telur rétt að auka hvalveiðar við Ísland. Þetta segir hann í samtali við fréttastofu RÚV .

Greint var frá því á dögunum að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra teldi það umhugsunarefni hvort ekki ætti að koma til móts við Alþjóðahvalveiðiráðið með því að veiða færri hvali árlega en nú er gert, en það kom fram í viðtali við hann í Skessuhorni. Jón er algjörlega ósammála þessu.

„Ég minni á þann hræðsluáróður sem hófst þegar atvinnuveiðar voru leyfðar. Hér átti allt að fara mjög illa í ferðaþjónustu og í okkar útflutningsgreinum en hið gagnstæða hefur nú gerst. Þannig að ég er algjörlega ósammála Gunnari Braga í þessari nálgun hans á málinu,“ segir Jón í samtali við RÚV.

Hann segist telja að jafnvel sé rétt að auka hvalveiðar við Ísland. „Það er að mínu mati og margra annarra mikið áhyggjuefni, vöxturinn í stofni hnúfubaks sem að telur orðið í áttina að 20.000 dýrum og hefur vaxið stórlega á síðustu árum.“