Sérstakt veiðigjald sem síðasta ríkisstjórn samþykkti í fyrra brýtur í bága við stjórnarskrá og því gætu útgerðarfyrirtæki fengið því hnekkt fyrir dómi. Þetta er mat Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt. Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um álitsgerð um veiðigjöldin sem hann vann að beiðni útgerðarfyrirtækis. Jón Steinar telur Alþingi ekki hafa haft stjórnskipulega heimild til að setja lögin með því efni sem þau hafa.

Hann vill ekki segja hvaða útgerð hafi óskað eftir álitsgerðinni en bendir á að eftir því sem hann best viti hafi forsvarsmenn fyrirtækisins ekki ákveðið hvort farið verði í mál.

Jón Steinar segir niðurstöðu álitsgerðarinnar þá að skattlagningin sé byggð á hugmynd sem fáist ekki staðist. Hugmyndin er sú að heimilt sé að leggja sérstök veiðigjöld á útgerðina sem endurgjald fyrir afnot af auðlind sem þjóðareign. Máli sínu til stuðnings vísar hann til þess að eignarréttur útgerðarfyrirtækja á aflaheimildum sé varinn samkvæmt stjórnarskrá. Jón Steinar segir að við það bætist að í lögum um veiðigjald séu þverbrotnar allar reglur sem gildi almennt um skattlagnginu.