Jón S. von Tetzchner,  annar stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software og eigandi nokkurra frumkvöðlasetra, vinnur að því þessa dagana að opna samfélagsmiðilinn Vivaldi.net. Miðillinn var upphaflega settur á laggirnar fyrir notendur hugbúnaðar Opera, s.s. Opera-vafrans sem fram til þessa hafa rætt um heimsins gagn og nauðsynjar á vefnum MyOpera. MyOpera var opnaður árið 2001 og var tilkynnt í fyrra að hann loki í mars á þessu ári.

Jón segir í samtali við Spyr.is Vivaldi.net svipa mjög til Facebook enda geti netverjar þar gert nokkurn vegin það sama og á Facebook.

Um tekjuhliðina segir Jón:

„Þetta á eftir að koma betur í ljós en ég hef reyndar ekki miklar áhyggjur af tekjum framtíðarinnar fyrir Vivaldi.net.  Netið er hreinlega afurð sem getur byggt mjög margt upp, án þess að tekjurnar komi frá auglýsingum sem byggja á upplýsingum um notendur. Við ætlum ekki að fara þessa hefðbundnu auglýsingaleið, þar sem meira að segja upplýsingarnar þínar í tölvupóstum eru notaðar fyrir auglýsingasölu eins og í gmail.  Notendur þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að svæðin þeirra séu uppfull af auglýsingum.“