Bandaríski stórbankinn JP Morgan Chase skilaði hagnaði upp á 5,6 milljarða bandaríkjadollara á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtu uppgjöri bankans.

Þetta eru betri niðurstöður en á sama tímabili í fyrra þegar bankinn skilaði tapi sem nam 380 milljónum dollara. Þá þurfti bankinn að eyða gífurlegum fjárhæðum í málaferli og lögfræðikostnað, en því var ekki að skipta á þessu ári.

Tekjur bankans á þriðja ársfjórðungi námu 25,2 milljörðum dala og hækkuðu um 5% frá fyrra ári. Tekjur af eignasölu hækkuðu úr 250 milljónum í þrjá milljarða dollara og nam hagnaðaraukning vegna þessa 20%.