Orkudeild bandaríska bankans JPMorgan hefur samþykkt að greiða 410 milljóna dala sekt, jafnvirði 45 milljarða íslenskra króna, vegna ásakana um markaðsmisnotkun. Orkumálaeftirlitsnefnd í Bandaríkjunum komst að þeirri niðurstöðu að JPMorgan hefði markvisst haldið upp orkuverði, aðallega í Kalíforníu og í miðvesturríkjunum.

Þetta er önnur stærsta sekt sem Orkumálaeftirlitsnefndin, FERC, hefur lagt á fyrirtæki. Þrátt fyrir að hafa greitt sektina viðurkennir bankinn ekki að hafa brotið af sér. Á vef BBC , breska ríkisútvarpsins, er vísað í yfirlýsingu JPMorgan þar sem fram kemur að bankinn lýsir yfir ánægju með að hafa náð samkomulagi við FERC.

Talsmaður JPMorgan, Brian Marchiony, segir einnig að samkomulagið hafi ekki áhrif á afkomu bankans vegna þess að fjármagn hafi þegar verið lagt til hliðar vegna þess.