Hluthafar í JPMorgan Chase & Co og Citigroup munu fá að kjósa um hvort að skipta eigi bönkunum upp í smærri einingar, en kosningin mun fara fram á aðalfundum bankana.

Kosningin kemur að frumkvæði Bart Naylor, en hann er hluthafi í báðum bönkum og krafist þess að kosið yrði um tillöguna á aðalfundi bankana.

Naylor segir í tillögu sinni að bankarnir séu orðnir of stórir til að hægt sé að stjórna þeim. Báðir bankarnir hafa lýst því yfir að þeir séu andvígir tillögunum. Citigroup sagði að bankinn hefði þegar tekið skref til að minnka eignasafn bankans og JPMorgan sagði að stærð og fjölbreytileiki bankans styrkti bankann.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Naylor leggur til svipaða tillögu, en á aðalfundi Bank of America var kosið um sama efni að hans frumkvæði, en einungis 4% hluthafa kusu með tillögunni.