Grænfriðungar og aðrir náttúruverndarhópar hafa haldið því fram að frekari olíuleit á norðlægum slóðum í Noregi væri í trássi við stjórnarskrá landsins. Þetta hefur komið fram í réttarhöldum í landinu fyrir héraðsdómstóli í Osló sem Reuters fréttastofan segir vera þau fyrstu sinnar tegundir.

Þar halda stefnendur því fram að leyfi frá árinu 2015 til olíuleitar í Barentshafi til Statoil, Chevron, Lukoil, ConocPhillips og annarra fyrirtækja brjóti í bága við stjórnarskrárákvæði sem segir að norska ríkið hafi skyldu til að valda ekki skaða á loftslaginu.

Lögmenn stjórnvalda segja málatilbúnaðinn einungis til þess fallin að vekja athygli á málinu, en norska ríkið er stærsti framleiðandi á olíu og gasi í vestur Evrópu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær íhuga stjórnvöld í landinu að hætta frekari fjárfestinum norska olíusjóðsins í olíuvinnslu.

Chathrine Hambro, lögmaður sækjenda málsins, segir leyfisveitinguna ekki vera í samræmi við stjórnarskrána, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá ofáætluðu stjórnvöld mögulegan hagnað af olíuleit í Barentshafi um 1.300 milljarða íslenskra króna.

Fredrik Sejersted, ríkislögmaður sagði fyrir réttinum að um væri að ræða misnotkun á lagabókstafnum. Þetta er amerísk notkun á réttarkerfinu,“ sagði Sejersted. „Við höfum ekki séð þetta áður og þetta er ólíkt lagalegum hefðum í Noregi.“

Sagði hann að ef ákæra grænfriðunganna næði fram að ganga myndi afleiðingarnar ekki einungis hafa áhrif á leyfin 10 frá árinu 2015. „Þetta mun stöðva alla veitingu leyfa við strendur Noregs til framtíðar og leggja hundruð þúsunda starfa í hættu.“