Fyrrum bankastjóri Swedbank hefur verið kærður til efnahagsbrotadeildar sænsku lögreglunnar vegna gruns um markaðsmisnotkun. Bankinn staðfesti þetta í fréttatilkynningu í dag.

Michael Wolf var leystur frá störfum í síðustu viku en nú hefur komið í ljós að það var vegna grunsamlegra viðskipta sem starfsmenn bankans uppgötvuðu og upplýstu sænska fjármálaeftirlitið um. Fjármálaeftirlitið beindi upplýsingunum til efnahagsbrotadeildar sænsku lögreglunnar sem mun í kjölfarið ákveða hvort lagst verður í formlega rannsókn á málinu.

Talsmenn Swedbank segja í tilkynningu að þeir staðfesti að bankinn hafi skilað upplýsingum um málið til fjármálaeftirlitsins þar á landi vegna gruns um ólögleg viðskipti. „Manneskjan sem heimilaði viðskiptin var fyrrum forstjóri bankans Michael Wolf,“ segir í tilkynningunni.

Wolf hætti skyndilega hjá bankanum í síðustu viku eftir að hafa starfað þar í sjö ár. Greint var frá því að hann myndi hljóta starfslokasamning upp á 23 milljónir sænskra króna eða 347,5 milljónir íslenskra króna. Birgitte Bonnesen hefur tekið við starfinu tímabundið þar til varanlegur bankastjóri verður ráðinn.