Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í upphafi mánaðar að Reykjavíkurborg hefði brotið jafnréttislög við ráðningu borgarlögmanns í ágúst í fyrra. Embættið var auglýst eins og lög gera ráð fyrir, en aðeins bárust tvær umsóknir, frá þeim Ebbu Schram, starfsmanni borgarlögmanns undanfarinn áratug, og Ástráði Haraldssyni lögmanni. Ebba var ráðin, en Ástráður kærði ráðninguna þar sem hann væri hæfari til starfans.

Með hliðsjón af menntun þeirra, starfsreynslu, sérþekkingu og öðrum hæfileikum sem nefndir voru í auglýsingu um starfið, taldi kærunefndin sýnt að Ástráður væri hæfari, en Reykjavíkurborg hafi ekki leitt fram aðrar ástæður fyrir ráðningu Ebbu en kynferði hennar.

Þetta er um margt merkileg frétt og óvanaleg af þessum vettvangi. Vísir sagði fyrst frá henni og eftir fylgdu Fréttablaðið, Morgunblaðið, Stöð 2, DV og loks fréttavefur RÚV tveimur dögum eftir að Vísir opnaði málið.

Fjölmiðlarýnir verður þó að játa að honum kom nokkuð á óvart hversu lítil og endaslepp umfjöllunin var. Þegar horft er til þess með hvaða hætti er jafnan fjallað um úrskurði af þessu tagi, þá var umfjöllun og eftirfylgni annarra miðla en Fréttablaðsins og Morgunblaðsins sáralítil, eiginlega einkennilega lítil.

Stundin hefur t.d. ekki enn frétt af þessum málum hjá borginni, en áhuginn á þeim bæ hefur hins vegar jafnan verið mikill þegar hún telur ráðherra Sjálfstæðisflokksins ekki sýna Ástráði fullan sóma, svo tekið sé dæmi af handahófi. Kjarninn varð málsins þó var, en lét nægja að vísa á frétt Vísis undir fyrirsögninni: „Hið opinbera brýtur aftur á Ástráði“.

Já bannsett opinberað, allt sama tóbakið! Sérstaklega var það þó skrýtið, áhugaleysi Ríkisútvarpsins, sem til þessa hefur verið einstaklega vakandi fyrir fréttum af þessu tagi. Þessi frétt slapp ekki einu sinni í fréttatíma, heldur var lítil netfrétt á laugardagseftirmiðdegi látin duga.

Einhvern tímann hefði mátt vænast þess að fréttastofa Ríkisútvarpsins gengi á línuna í ráðhúsinu og meðal oddvita meirihlutaflokkanna, þjarmaði að borgarstjóra dag eftir dag og þráspyrði hvort einhver þyrfti ekki að axla ábyrgð? Það var nú ekki svo. Það var enginn spurður að neinu, heldur aðeins látið duga að endursegja gamlar fréttir annarra miðla.

Eina viðbót Dagnýjar Huldu Erlendsdóttur, fréttamanns RÚV, var að geta þess að Ástráður hefði fengið dæmdar bætur í fyrra vegna málsmeðferðar við skipun Landsréttar, eins og það kæmi einhverju við. Enginn valdamaður ráðhússins var nefndur á nafn, en Sigríður Andersen dómsmálaráðherra var hins vegar ein nefnd til sögunnar sem skúrkur í fréttinni!

Nú er erfitt að átta sig á því hvað olli þessu ótrúlega áhugaleysi. Af þessu síðasta að dæma stafaði áhugaleysið þó tæplega af því að málið varðaði Ástráð, sem hefur áður komið við sögu frétta af ýmsu tagi og sjálfur ekki laus við pólitískar tengingar. Var það sama staðreynd og varð til þess að starfið gekk honum úr greipum, sumsé að hann er karlmaður?

Getur verið að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála þyki aðeins fréttnæmir í Efstaleitinu ef þeir snúast um brot gegn konum? Eða hefur áhugi á brotum á jafnréttislögum við mannaráðningar dvínað á fréttastofunni? Þykja brot af þessu tagi ekki fréttnæm meðan þau eru framin af vinstrimönnum í borgarstjórn en ekki hægrimönnum í ríkiisstjórn?

Spyr sá sem ekki veit, en eitthvað er bogið við fréttamatið á fréttastofu Ríkisútvarpsins þegar Ráðhús Reykjavíkur á í hlut, svo mikið er víst. Sem er auðvitað þeim mun neyðarlegra þegar haft er í huga hversu mjög fjárhagslegir hagsmunir RÚV hafa verið háðir velvilja borgarstjóra síðustu misseri. Sem er sjálfstætt umhugsunarefni.

***

Lítil frétt í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins á sunnudag vakti athygli, aðallega fyrir það hvað hún var lítil frétt. Þar var rætt við mann, sem kynntur var sem umhverfissálfræðingur, en hann hafði frá ýmsu að segja um hvernig einkenni miðbæjarins væru að breytast með nýjum byggingum, sem nú rísa við Lækjargötu.

Ekki skal dregið í efa að margir taki undir þau sjónarmið. Vandinn er hins vegar sá að það virtist ekki koma menntun hans hætishót við, heldur var hann aðeins að lýsa almennu áliti og smekk á ásýnd borgarinnar. Fréttastofan hefði allt eins getað spurt handbæran leigubílstjóra að áliti og fengið jafnlærð svör.

Það þarf að gæta þess að viðmælendur í fréttum komi efninu sérstaklega við (svona að frátöldum viðtölum við manninn á götunni og konuna í Kringlunni) og hafi eitthvað sérstakt og fréttnæmt að segja um þær. Það er ekki nóg að viðkomandi hafi vel hljómandi prófgráðu.

***

Það var nokkuð látið með fréttamynd frá hópmyndartöku á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO), þar sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaut augum til himins nokkuð herpt á svip, en út undan henni voru þau Donald Trump Bandaríkjaforseti og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, að stinga saman nefjum. The New York Times notaði hana sem forsíðumynd, vafalaust til þess að endurspegla einhverja afstöðu til forsetans umdeilda, án þess þó í nokkru væri vikið að því í myndatexta.

Úr þessu gerðu ýmsir sér mat, bæði fjölmiðlar og fólk á félagsmiðlum, og sýndist sitt hverjum. Enginn gat þó bent á nein dæmi þess að Katrín hafi sýnt annað en fyllstu háttvísi í garð kollega sinna eða leitt rök að því að hún hafi með látbragði reynt að láta í ljósi óþol eða þögul mótmæli.

Nei, sennilegast var þetta bara mynd tekin á sniðugu augnabliki, sem svo mátti nota sem myndskreytingu um eitthvað annað. Svo er ekki ómögulegt, að eitthvað forvitnilegt hafi verið í loftinu, því sams konar mynd náðist af Angelu Merkel Þýskalandskanslara, þó hún hafi ekki flogið jafnhátt á Íslandi.

Myndir og myndaval af þessu tagi eru alls ekki óvenjulegar hjá fjölmiðlum, svona hópmyndir eru oft hið eina sem er í boði við fréttnæma atburði eins og leiðtogafundi, en þær eru einstaklega staðlaðar og óspennandi myndir. Ljósmyndarar reyna því jafnan að fanga þau augnablik þegar eitthvað bregður frá vananum, það glittir í persónurnar að baki embættunum, tala nú ekki um þegar nota má þær til þess að myndskreyta flókna stöðu, skoðun eða skilning, eins og þarna.