*

sunnudagur, 17. febrúar 2019
Innlent 13. nóvember 2018 12:40

Kaffi Rosenberg gjaldþrota

Lýstar kröfur í þrotabú staðarins námu um 43 milljónum króna, en engar eignir fundust í búinu.

Ritstjórn
Héraðsdómur Reykjavíkur við Austurstræti.
Haraldur Guðjónsson

Veitinga- og skemmtistaðurinn Kaffi Rosenberg hefur nú verið tekinn til gjaldþrotaskipta en lýstar kröfur í þrotabú staðarins námu um 43 milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu. 

Engar eignir fundust í búinu og var skiptum í því lokið 28. júní 2018 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Viðskiptablaðið greindi frá því í apríl síðastliðnum að fyrirtækið hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. 

Í október á síðasta ári tóku nýir eigendur við rekstri staðarins þegar Ólafur Örn Ólafsson og Kári Sturluson, seldu hann eftir fimm mánaða rekstur. Á þeim tíma vildu Ólafur Örn og Kári ekki greina frá því hver hefði keypt staðinn. Að því er Viðskiptablaðið kemst næst voru það tveir lífeyrissjóðir sem óskuðu eftir gjaldþrotaskiptunum.