Stjórnendur Kaffitárs hafa kært Isavia á nýjan leik til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna synjunar Isavia á að afhenda gögn um forval fyrirtækisins vegna útleigu á veitingarými í Leifsstöð sem lauk í september 2014. Í umfjöllun Fréttablaðsins um málið kemur fram að Kaffitár óskar meðal annars eftir því að fá aðgang að upplýsingum sem Isavia hafði strikað yfir sérstaklega.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í júní 2016 að afhenda bæri gögn vegna forvalsins. Alls féllu sjö úrskurðir í málinu og varaði Samkeppniseftirlitið meðal annars við að afhending gagnanna gæti brotið í bága við samkeppnislög. Aðalheiður Héðinsdóttir, stjórnarformaður Kaffitárs, segir að Isavia hafi í byrjun þessa árs afhent fyrirtækinu einhver af þeim gögnum sem óskað var eftir. Hins vegar hafi ríkisfyrirtækið strikað með svörtum tússpenna yfir þær upplýsingar sem Isavia fannst að Kaffitár ætti ekki að fá aðgang að.

Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, segir að fyrirtækið hafi tekið saman öll gögn um málin, og afhent Kaffitári, en hafi í samráði við aðra umsækjendur í forvalinu strikað yfir viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um einstök fyrirtæki. Hann segir enn fremur að það sé óheimilt að dreifa upplýsingum á milli fyrirtækja sem eru í samkeppni.