Viðskiptaráð segir í nýrri umfjöllun að tölurnar sýni svart á hvítu að frjálslyndar áherslur, á mælikvarða ríkisumsvifa, hafi heilt á litið orðið undir á síðustu árum. Ráðið hvetur því flokka sem gefa sig út fyrir að vera frjálslyndisflokkar að standa betur vörð um raunverulega verðmætasköpun og berjast gegn auknum umsvifum hins opinbera.

Í umfjöllun sinni bendir Viðskiptaráð á að skattar hafi hækkað undanfarin tíu ár, sama hvort litið er til álagningar á einstaklinga eða fyrirtæki. Ennfremur að heildartekjur hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi aukist úr liðlega 35% árið 1980 í 43% árið 2017. Þá hafi tekjur hins opinbera á hvern íbúa nærri tvöfaldast á þrjátíu ára tímabili og að skatttekjur hins opinbera séu með því hæsta sem gerist í heiminum.

Viðskiptaráð segist fagna umræðu um frjálslyndi og auglýsir um leið eftir að fleiri sýni frjálslyndi í verki.