Bandalag Háskólamanna (BHM), sendi frá sér yfirlýsingu vegna úrskurði kjararáðs um laun forseta Íslands, þingfarakaup alþingismanna og launakjör ráðherra. Þar kemur fram að hækkun launa æðstu ráðmanna þjóðarinnar um allt að 44% sé ekki í neinu samræmi við þær launahækkanir sem ríkið býður opinberum starfsmönnum eða það sem er samið um á opinberum launamarkaði.

„BHM kallar því eftir heildarendurskoðun á lögum um kjararáð. Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að skýra viðmiðunarreglur kjararáðs, fækka starfsstéttum sem undir það heyra og bæta verklag við ákvarðanir ráðsins. Viðmiðun ráðsins gæti t.d. byggt á annars vegar samanburði við launaþróun opinberra starfsmanna og hins vegar launaskriði á almennum vinnumarkaði. Reglulegar launabreytingar sem byggja á skýrum og gagnsæjum viðmiðunarreglum og samræmdum launagögnum eru forsenda sáttar um starf kjararáðs,“ segir í tilkynningu BHM.

Þar er einnig tekið fram að þátttakendur í salek-samstarfinu hafa unnið að því að bæta vinnubrögð við samningagerð á íslenskum vinnumarkaði og að í þeirri vinnu hafi BHM lagt áherslu á traust á milli aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera. BHM telur jafnframt að úrskurður kjararáðs sé ekki til þess fallinn til að skapa slíkt traust og grafi undan möguleikum á því að skapa sátt á vinnumarkaði.

„BHM ítrekar því að ekki verði hægt að koma á sátt um nýtt vinnumarkaðslíkan nema umbætur á launaumhverfi æðstu stjórnenda ríkisins falli þar undir líka. BHM væntir þess að nýkjörið Alþingi bregðist skjótt við og greiði fyrir umbótum á vinnumarkaði með lagabreytingum um kjararáð svo koma megi í veg fyrir innbyrðis höfrungahlaup þeirra hópa sem undir það heyra,“ segir að lokum í tilkynningunni.