Með því að fella úr gildi rekstrar- og starfsleyfi fiskeldisfyrirtækja sem þegar hafa hafið starfsemi á Vestfjörðum hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála brotið grundvallarreglu réttarríkisins að mati Samtaka atvinnulífsins.

Sú regla er að lög séu fyrirsjáanleg en samkvæmt yfirlýsingu á vef samtakanna hefur löggjafinn framselt of víðtækt vald til stjórnsýslunefnda sem hafi sjálfsvald um að setja fram sífellt nýjar kröfur og kvaðir sem ekki eru í lögum.

„Alþingi verður að grípa í taumana og gera lögin skýrari og fækka matskenndum ákvæðum svo stefnan sé mörkuð af lýðræðislega kjörnum fulltrúum,“ segir í yfirlýsingu á vef samtakanna um málið. „Ekki andlitslausum stjórnsýslunefndum sem  bera takmarkaða ábyrgð og þurfa ekki að endurnýja umboð sitt hjá almenningi.“

Segja samtökin úrskurðinn lýsa miklu skilningsleysi á laxeldi og vinnubrögðin og afgreiðsluna umdeilanleg. Segja samtökin afleiðingina að óbreyttu ekki geta verið annað en gjaldþrot þeirra fyrirtækja sem um ræðir, sem og töpuð störf og verri afkoma fólks og fyrirtækja á svæðinu. Laxeldi er að mati SA ein sú grein sem mest geti vaxið á næstu árum.

„Áhrifin gætu þó  orðið enn víðtækari. Í fyrsta lagi eru allar leyfisumsóknir sem tengjast fiskeldi í uppnámi. Óljóst er hversu langt fyrirtæki þurfa að fara aftur í ferlinu til að uppfylla þessar nýju kröfur,“ segja samtökin og benda á að úrskurðurinn varði ekki eingöngu fiskeldi heldur geti varðað allar framkvæmdir og starfsemi sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

„Nefndin hunsar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og tekur ekki tillit til réttmætra væntinga í ljósi afgreiðslu á fyrri stigum. Harkalegasta úrræðinu er beitt, sviptingu leyfis, vegna nýrra krafna sem ekki er áskilnaður um í lögum. Ekki er litið til aðstæðna og eðlis þeirrar starfsemi sem er undir. Í kvíunum eru lifandi dýr. Það er ekki verið að stöðva holugröft þar sem grafan getur sinnt öðrum verkefnum meðan leyst er úr stjórnsýslulegum ágreiningi.“