Konráð S Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, kallar eftir því í grein á Vísi.is að lífeyrissjóðir fjárfesti í auknum mæli í nýsköpunarfyrirtækjum.

Hann segir að þrátt fyrir ákall um aukna nýsköpun eigi hún sumstaðar undir högg að sækja. Til dæmis hafi fjárfesting í sprotafyrirtækjum dregist saman um 81% frá 2015 skv. samantekt Northstack. Að sama skapi séu þau fyrirtæki sem landsmenn státa sig af, sem dæmi um velgengni íslenskrar nýsköpunar, mörg hver orðin eldri en 10 ára og því rótgróin.

Jafnframt segir hann að fjölgun lífeyrisþega skapi áskoranir því til þess að standa undir fjölguninni þurfi lífeyrissjóðir að skila góðri ávöxtun. Það sé sífellt að verða erfiðara sökum lækkandi vaxtastigs og fjárfestingarumhverfis sem sníður lífeyrissjóðunum þröngan stakk.

Því sé tilefni fyrir sjóðina til þess að fjárfesta í auknum mæli í nýrri tækni og þekkingu þ.e. nýsköpun.

„Lífeyrissjóðir sem stofnanafjárfestar eiga ekki að vera ráðandi í sprotafyrirtækjum á Íslandi og munu seint verða leiðandi í nýsköpun. Engu að síður hljóta að vera tækifæri til að styðja mun betur við nýsköpun – bæði með auknum fjárfestingum lífeyrissjóða í ungum framsæknum fyrirtækjum og ekki síður innan rótgróinna fyrirtækja í eigu sjóðanna. Hagsmunir lífeyrissjóðanna og samfélagsins í heild eru nefnilega þeir sömu þegar allt kemur til alls – öflugt efnahagslíf sem sækir fram með nýsköpun og getur séð fyrir fólki á efri árunum,“ skrifar Konráð.