„Við höfum boðað samninganefnd félagsins á fund á morgun þar sem við förum yfir þessa niðurstöðu, ræða næstu skref og mögulegt aðgerðarplan. Á fundinum förum við yfir stöðuna og leitumst eftir því að fá umboð til að taka næstu skref. Þó að við séum búin að teikna ákveðið aðgerðarplan upp þá gerist ekkert fyrr en að við erum búin að ræða hlutina í okkar baklandi um það hvernig og hver næstu skref verða," segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við Viðskiptablaðið, en eins og greint hefur verið frá þá hefur viðræðum í kjaradeilu Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur verið slitið.

Ragnar segir að samkvæmt því aðgerðarplani sem liggur fyrir að rætt verði á fundinum á morgun, þá verði um að ræða „staðbundnar aðgerðir" sem muni hafa lítil áhrif á daglegt líf fólks. „Þetta mun svo sannarlega ekki þýða að allir félagsmenn VR muni fara í verkföll, heldur lítill hluti í einu. Við munum reyna að mæta þeim hópum með þeim hætti að þau annað hvort haldi fullum tekjum eða að skerðingar verði með minnsta mögulegum hætti."

Þeir félagsmenn sem aðgerðirnar ná yfir kjósa um aðgerðirnar

„Án þess að fara eitthvað nákvæmlega út í útfærsluna, þá þýðir þetta einfaldlega það að þeir sem aðgerðirnar ná yfir, þá starfsfólk og þeir félagsmenn, það eru þeir sem munu kjósa um aðgerðirnar en ekki þeir sem aðgerðirnar ná ekki yfir. Þetta er því eins og áður segir staðbundnar aðgerðir og það eru þá algjörlega á valdi þeirra félagsmanna sem um ræðir hverju sinni hvort þeir kjósi að fara í aðgerðir eða ekki. Ég hef mjög litlar áhyggjur af því að aðgerðirnar verði ekki samþykktar, miðað við það tilboð sem að liggur á okkar borði frá Samtökum atvinnulífsins," segir Ragnar Þór.

Tilboð SA feli í sér kaupmáttarrýrnun fyrir stóran hóp félagsmanna

„Við getum sem dæmi tekið að nú nýlega hækkaði bankastjóri Landsbankans „hóflega" í launum um 80% eða 1,7 milljónir á mánuði. Kjararáð hækkaði svo laun alþingismanna og kjörinna fulltrúa um u.þ.b. 45%, með jafnvel afturvirkri endurgreiðslu til ákveðinna embættismanna upp á margar milljónir," segir Ragnar Þór og bætir við:

„Það sem stendur á borðinu fyrir okkar félagsmenn er um 2,5% hækkun, sem þýðir að okkar stærstu hópar munu þurfa að taka á sig kaupmáttarrýrnun. Ef að menn halda að þetta sé eitthvað sem fólk mun sætta sig við, þá held ég að það sé mikill misskilningur. Þegar við munum gera fólki raunverulega grein fyrir þeim hlutum sem við höfum hingað til ekki mátt ræða mikið um; hversu langt við vorum tilbúin að ganga til að ná samningum, hversu mikla vinnu við lögðum á okkur til að landa þessu og hversu smá skref Samtök atvinnulífsins voru tilbúin að ganga til þess að mæta okkur - þá hef ég engar áhyggjur af því að fá félagsmenn okkar ekki með. Ég hef enga trú á því að fólkið okkar muni láta bjóða sér þessa svívirðu þegjandi og hljóðalaust."