Kanada hefur gengið inn í nýjan fríverslunarsamning Bandaríkjanna og Mexíkó, sem taka á við af NAFTA. Samningar tókust seint í gærkvöldi, aðeins nokkrum klukkutímum fyrir skilafrest samningsins til Bandaríkjaþings.

Nýi samningurinn, sem mun bera heitið United States-Mexico-Canada Agreement, bindur enda á margra mánaða óvissu um milliríkjaviðskipti í Norður-Ameríku, en Donald Trump Bandaríkjaforseti fór mikinn í andstöðu sinni við NAFTA í kosningabaráttunni 2016.

Í sameiginlegri tilkynningu frá Kanada og Bandaríkjunum er samningurinn sagður munu tryggja verkafólki og fyrirtækjum frjálsari markaði, sanngjarnari viðskipti, og heimsálfunni öflugan hagvöxt. „Þetta er góður dagur fyrir Kanada“ er haft eftir Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og nýkjörinn forseti Mexíkó, Andrés Manuel López Obrador, sagðist í tísti fagna samningnum, sem muni tryggja vissu og stöðugleika í milliríkjaviðskiptum heimsálfunnar.

Talsmenn ríkisstjórnar Trumps segja samninginn innihalda fjölda ákvæða sem muni „jafna út“ milliríkjaviðskipti milli landanna þriggja. Þá mun vera ákvæði um að leggi Bandaríkin innflutningstolla á bíla – eins og Trump hefur talað um að gera við bíla frá Evrópusambandinu af þjóðaröryggisástæðum – verði núverandi fjöldi framleiddra bíla frá Kanada og Mexíkó þeim undanþeginn.

Til stendur að Trump, Trudeau og Enrique Peña Nieto, fráfarandi forseti Mexíkó, undirriti samninginn þann 30. nóvember næstkomandi, en Bandaríkjaþing mun kjósa um hann á næsta ári. Þingkosningar fara fram í Bandaríkjunum nú í haust, og gætu því haft mikið um afdrif samningsins að segja.