Birgit Kostizke er eigandi félagsins Kanína ehf. en félagið ræktar holdakanínur til manneldis. „Ég fékk hugmyndina að því að stofna kanínubú árið 2009 þegar ég vann í sláturhúsi. Ég hafði tekið eftir því að það var aldrei til kanínukjöt, við borðuðum mikið af fiski og lambakjöti en aldrei kanínur. Ég spurði því hvort við gætum ekki haft kanínukjöt á boðstólum einhvern tímann. Það horfðu bara allir á mig eins og ég hefði verið að grínast en svo komst ég að því að kanínukjöt var ekki til á Íslandi.“ Birgit segir að viðtökurnar hafi verið blendnar.

„Í upphafi hafði fólk ekki trú á því að þetta myndi virka, fólk sagði að það vildi ekki borða vini sína og þannig. Þetta breyttist þó þegar ég sýndi fólki holdakanínurnar sem ég ætlaði að rækta, þær eru töluvert stærri heldur en litlu gæludýrin sem fólk er með.

Hágæða kanínukjöt til Evrópu

„Við fengum síðan sláturleyfi í desember 2013 en fyrsta slátrunin fór fram árið 2014. Við slátrum núna með reglulegu millibili en markmiðið er að fyrirtækið nái að framleiða 200 kíló af kjöti mánaðarlega. Við höfum horft á síðustu fjögur ár sem ákveðna tilraunastarfsemi. Við erum að leita að fjárfestum núna við áætlun um að fyrirtækið standi undir kostnaði næsta sumar. Eftir 10 ár vonumst við líka til þess að flytja út hágæða kanínukjöt til Evrópu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .