Ágæti frjálsra markaðsviðskipta og stórfyrirtækja hefur um langt skeið verið umdeilt í bandarískum stjórnmálum þar til nú. Meðal Demókrata hafa nokkrir stjórnmálamenn sem ekki eru feimnir við að kalla sig sósíalista átt góðu gengi að fagna, eins og Alexandria Ocasio-Cortez.

Fyrir framan nefndir bandaríska þingsins hafa forsvarsmenn bankarískra stórfyrirtækja því þurft að svara mun harðari gagnrýni, ekki bara fyrirtækin heldur á sjálft skipulag kapítalismans. Financial Times fjallar um áhyggjur forstjóranna í langri umfjöllun núna um helgina. Þar segir meðal annars að gagnrýni á kerfið komi ekki eingöngu úr röðum vinstri manna heldur kalli margir af forstjórunum einnig eftir breytingum þótt þeir hafi mögulega hagnast mest allra á núverandi stöðu mála.

Forstjóri og stjórnarformaður JP Morgan Chase, sem hlaut 30 milljónir dollar í laun á síðasta ári, eyddi drjúgum tíma á aðalfundi bankans í það að ræða endalok Bandaríska draumsins og hvaða hlutverk fyrirtækin gætu gegnt í því að endurvekja hann í hugum kjósenda. Rétt eins og ríkisstofnanir og verkalýðsfélög hafi fyrirtækin orðið of starsýnt á eigin hagsmuni.

Ray Dalio sem stýrir fjárfestingasjóðnum Bridgewater Associated og er talinn eiga um 17 milljarða dollara, hefur einnig lýst yfir áhyggjum af þróuninni. Þrátt fyrir að hann telji sig sjálfan vera kapítalista þá geti hann ekki neitað því að kerfið sé bilað. Umfjöllun Dalio vakti athygli og í fréttaskýringaþættinum 60 minutes sagði Dalio að kerfið gæti hið kapítalíska kerfi væri á tímamótum. Annað hvort yrði kerfinu breytt í sameiningu eða því verði breytt í átökum. Valið stæði um aðlögun eða dauða.