Karen Kjartansdóttir.
Karen Kjartansdóttir.

Karen Kjartansdóttir, varafréttastjóri Stöðvar 2, hefur látið af störfum hjá 365. Hún mun hefja störf sem upplýsingafulltrúi Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) á morgun.

„Ég hef unnið í góðu yfirlæti hjá 365 í um árabil og óska samstarfsmönnum mínum þar alls hins besta,“ segir Karen Kjartansdóttir, í samtali við VB.is „Eftir að hafa unnið sem blaðamaður í þennan tíma tel ég tímabært að hefja störf á nýjum vettvangi. Ég hef alltaf haft áhuga á grundvallaratvinnuvegunum og sjávarútvegnum þar á meðal,“ segir hún enn fremur.

Karen er bókmenntafræðingur og hefur starfað í fjölmiðlum frá byrjun árs 2005. Hún hóf störf á DV og vann þar til ársins 2006 en flutti sig þá yfir á NFS, því næst fór hún á Fréttablaðið og starfaði þar til ársins 2010 en þá hóf hún störf á fréttastofu Stöðvar 2. Frá því í sumar hefur hún gegnt stöðu varafréttastjóra á Stöð 2.

Hlynur Sigurðsson var áður upplýsingafulltrúi LÍÚ en hann er núna kominn til starfa hjá kvikmyndaframleiðslufyrirtækinu Stórveldinu.

------------
Uppfært klukkan 15:27
Í tilkynningu frá Karen þakkar hún samstarfsfólki sínu hjá 365 innilega fyrir samstarfið síðast liðinn áratug og segist hlakka til að takast á við ný verkefni hjá LÍÚ.