Nokkrar breytingar verða á Morgun- og Síðdegisútvarpi Rásar 2 næsta vetur að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Ríkisútvarpinu.

Karen Kjartansdóttir hefur verið ráðin sem dagskrárgerðarmaður inn í Morgunútvarpið en Karen hefur áralanga reynslu úr fjölmiðlum, var blaðamaður á DV og Fréttablaðinu og svo fréttamaður og varafréttastjóri á Stöð 2. Undanfarin ár hefur hún unnið sem upplýsingafulltrúi og ráðgjafi en snýr nú aftur í fjölmiðlana.

Atli Már Steinarsson , tækni- og dagskrárgerðarmaður hefur einnig bæst í hópinn. Atli hefur vakið athygli hlustenda á Rás 2 með tónlistarþáttum eins og Kallkerfinu og Rabbabara. Þá hefur hann verið hluti af teyminu sem sér um Síðdegisútvarpið og veitt hlustendum félagsskap í eldhúsinu í Eldhúsverkunum.

Sigmar Guðmundsson heldur áfram sínum störfum í Morgunútvarpinu. Þátturinn verður á dagskrá alla virka daga milli 7 og 10.

Þá mun Andri Freyr Viðarsson snúa aftur í daglega dagskrá Rásar 2. Hann tók sér leyfi á síðasta ári en kemur nú fílefldur til baka. Andri Freyr hefur áralanga reynslu að baki í útvarpi og hefur verið einn okkar ástsælasti útvarpsmaður undanfarin ár.

Þau Andri Freyr, Björg Magnúsdóttir og Guðmundur Pálsson munu stýra nýju Síðdegisútvarpi sem lengist og verður nú fram að kvöldfréttum sjónvarps sem er útvarpað kl. 19.