Kári Stefánsson skrifar opið bréf til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Í bréfinu segist Kári hafa komist að þeirri niðurstöðu að Sigmundur verði að standa up úr stólnum.

Hann segir að ef hann hafi rangt fyrir sér og hann neyðist ekki til að standa upp úr stólnum sé það vegna þess að Alþingi sé að einhverju leyti skipað lúðulökum og lufsum. Hann segist þó viss um að hann muni segja af sér af fúsum og frjálsum vilja af því að Sigmundur sé góður drengur og af því honum þyki vænt um sína þjóð.

Hann segir að fáar ákvarðanir ríkisstjórna síðustu áratugina hafi skipt jafn miklu máli og hvernig taka skyldi á kröfuhöfum föllnu bankanna. Hann segir að Sigmundur og Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hafi lofað að hægt væri að sækja allt að 850 milljarða í þrotabúin.

„Nú sitjum við hins vegar uppi með einungis 300 milljarða vegna þess að kröfuhöfunum var gefið tækifæri til þess að leggja af mörkum stöðugleikaframlag í stað þess að borga útgönguskatt. “

Kári segir einnig að það sé óásættanlegt að þjóðin frétti það nú að maðurinn sem smíðaði samkomulagið við kröfuhafanna sé einn af þeim. Hann segir að færa megi rök fyrir því a ðhann hafi orðið uppvís af landráðum.

„ Í því endurspeglast dómgreindar-skortur sem gæti endað í sögubókum. Þjóðarleiðtogi sem er að semja fyrir hönd þjóðar sinnar og hefur sem einstaklingur hagsmuna að gæta með þeim sem hann er að semja við og gegn þjóðinni er óhæfur til þess að sinna starfi sínu og ef hann heldur því leyndu má leiða að því rök að hann hafi orðið uppvís að landráðum. Skiptir þá litlu hvers eðlis hagsmunirnir eru sem um ræðir eða hvort hann græðir á hagsmunaárekstrinum eða tapar.“