Kári Stefánsson sagði í sjónvarpsþættinum Íslandi í dag í gær að um 35% þjóðarinnar leituðu sér einhvertímann á ævinni aðstoðar vegna áfengissýki. Kári var þá að ræða frumvarp um afnám einkaréttar ríkisins á sölu áfengis og var þar í sjónvarpssal með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Aðspurður hvaðan hann hefði fengið þessa 35% tölu sagði Kári:

„Þetta eru tölur frá SÁÁ, ég var að tala við Þórarinn Tyrfinsgsson [yfirlæknir á Vogi] áður en ég kom hingað, þannig að ég trúi honum frekar en þér þegar kemur að tölum um þetta“

Viðskiptablaðið skoðaði heimasíðu SÁÁ og fann þar tölur sem Áslaug hafði nefnt, þ.e. um 9% karlmanna og 4% kvenmanna. Spurður um hvor talan væri rétt sagði Þórarinn í samtali við Viðskiptablaðið:

„Það fer eftir því hvað þú ert að tala um. Ef þú ert að tala um hversu margir leita sér meðferðar einhvertímann á æviskeiðinu þá er það nú meira en sú tala sem þú ert að tala um [vitnar þá í tölur sem blaðamaður hafði fundið á heimasíðu SÁÁ, 9,2% af karlmönnum og 4% kvenna sem eru þær sömu og Áslaug vitnaði til í Íslandi í dag] Lífslíkurnar á að koma til meðferðar einhvertímann á ævinni hafa löngum verið um 20% fyrir karla og um 10% fyrir konur.“

Spurður hvort einhver tölfræði sé þá til fyrir þá sem leiti sér aðstoðar, en ekki einungis þeir sem leiti sér meðferðar segir Þórarinn:

„Það veit ég ekki um, ég er að tala um þá sem eru illar haldnir af áfengi. Þá erum við að tala um 15% sem leita sér meðferðar. Síðan leitar fólk sér víðar aðstoðar vegna þessa vanda, sem eru t.d. með vægari vandamál en þeir sem koma til okkar, því þeir eru nú yfirleitt með alvarleg vandamál.“

Spurður þá um hvort að Kári hafi þá í raun fengið þessa 35% tölu úr samtali við hann segir Þórarinn:

„Það getur vel verið að hann hafi á einhvern hátt misskilið það sem ég sagði en ég hef alltaf sagt þetta sama, hef sagt í mörg ár og það liggja fyrir tölfræðilegar upplýsingar frá þessari stofnun um hvað margir hafa komið hingað, við höfum ekkert verið að álykta meira út frá því og okkur finnst það alveg nógu mikið.“

Þátt Íslands í dag með Kára og Áslaugu má sjá hér og ummælin má finna stuttu eftir  6:15