Karl Kári Másson hefur hafið störf hjá norræna fjárfestingarbankanum Beringer Finance sem forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf bankans. Karl Kári mun hafa aðsetur í Reykjavík og aðallega sinna verkefnum á Íslandi og Norðurlöndunum.

Karl Kári kemur frá Landsbankanum þar sem hann hefur verið í rúmlega ellefu ár, m.a. í greiningardeild, fyrirtækjaráðgjöf, endurskipulagningu eigna og útlánaeftirliti. Áður starfaði Karl Kári m.a. hjá Sparisjóði Reykjavíkur og Actavis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá bankanum.

Karl Kári er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Texas A&M University.

Reynsla úr viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi

“Við hjá Beringer Finance erum afar ánægð með að fá Karl Kára til okkar en hann hefur mikla reynslu af fjármálamarkaði, bæði úr viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi”, segir Aðalsteinn Jóhannsson , forstjóri Beringer Finance í tilkynningunni.

„Við bjóðum hann velkominn í okkar öfluga hóp þar sem reynsla hans af því m.a. að stýra umfangsmiklum fjármögnunarverkefnum mun nýtast vel.“

„Ég hlakka til að taka þátt í starfi Beringer Finance, enda bankinn í lykilstöðu þegar kemur að alþjóðlegum verkefnum á sviði tækni og hugvits,” segir Karl Kári Másson .

„Ég mun vinna með þeim öfluga og reynslumikla hópi sem þar er fyrir og spennandi verður að leggja mitt að mörkum við að efla Beringer Finance enn frekar.“

Um Beringer Finance:

Beringer Finance á sér rúmlega 100 ára sögu sem traustur fjárfestingarbanki með áherslu á fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskipti. Beringer Finance býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á verðbréfaviðskiptum og fjárfestingarbankastarfsemi með áherslu á langtíma virðisaukningu fyrir viðskiptavini sína.

Á síðastliðnum 20 árum hefur Beringer Finance lokið yfir 300 verkefnum að samanlögðu verðmæti viðskipta yfir ISK 2.500 milljarða, allt frá stórum alþjóðlegum viðskiptum að smærri svæðisbundnum verkefnum.

Í júní 2016 var tilkynnt um samruna Beringer Finance AB og Fondsfinans AS, en í dag starfa rúmlega 80 starfsmenn í starfsstöðvum bankans í Osló, Stokkhólmi, Reykjavík, Palo Alto og New York (Beringer Finance US, Inc).