Karlmaður lést í átökum við lögregluna í Hraunbæ snemma í morgun. Karlmaðurinn var vopnaður og hafði skotið úr íbúð sinni nokkrum sinnum áður en hann var stöðvaður. Hann hafði í tvígang skotið á lögregluna og skotið lögreglumann í höfuðið en sá var með hjálm á höfði og hlaut ekki alvarleg meiðsl. Lögreglan hafði setið um íbúðina og reynt að stöðva manninn í um nokkra klukktíma skeið áður en hann var skotinn til bana.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði að þessi atburður ætti sér ekki fordæmi hér á landi. Ríkislögreglustjóri hefði sett sig í samband við innanríkisráðherra og ríkissaksóknara vegna málsins. Ríkissaksóknari mun rannsaka það. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lögreglan boðaði til klukkan ellefu í morgun. Lögreglan hafði gert ítrekaðar tilraunir til þess að ná sambandi við manninn og stöðva hann, en án árangurs.

Sérsveit ríkislögreglustjóra og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komu að aðgerðum í morgun. Fulltrúar lögreglunnar vottuðu aðstandendum hins látna samúð sína á fundinum.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði á blaðamannafundinum að góður búnaður og góð þjálfun lögreglumanna hefði skipt sköpum í þessu tilfelli.