Jón Örn Stefánsson eigandi Kjötkompanísins segir að þrátt fyrir blautt sumar hafi söluaukningin numið allt að fjórðungi, en félagið sérhæfir sig í að selja gæðakjöt og meðlæti.

Allt árið í fyrra seldi félag hans, sem nú rekur tvær verslanir við Grandagarð og í Dalshrauni í Hafnarfirði, fyrir 738 milljónir, en hagnaðurinn þá tvöfaldaðist milli ára og nam ríflega 16 milljónum. Hann segir að veltan á fyrri hluta þessa árs hafi aukist um 23% frá sama tíma í fyrra.

„Ég var eiginlega skíthræddur við þessa blessuðu veðráttu en það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég var að skoða fyrri part sumarsins, yfir þetta mesta rigningartímabil, að þá vorum við í 25% aukningu á milli ára. Það segir okkur að við erum kannski ekki jafn háð veðrinu eins og við höldum,“ segir Jón Örn sem fann vel fyrir að fólk vildi gera sér glaðan dag í kringum Heimsmeistaramótið í knattspyrnu.

„Sérstaklega á leikdögunum hjá íslenska landsliðinu, þá var hreinlega karnívalstemning hérna hjá okkur. Sama gilti núna á föstudeginum fyrir Verslunarmannahelgina þá var salan tvöföld á við venjulegan föstudag, það eru nokkrir svona hápunktar yfir árið. Þó veðráttan hafi ekki verið eins og við vildum nákvæmlega hafa hana.

Okkar kúnnar eru ekkert að fara í eitthvað volæði. Það voru bara settir dýrindis kjötbitar á grillið og gert gott úr þessari veðráttu. Sumir ætluðu að taka þetta grand og keyptu stórar steikur, svo voru aðrir léttari á því og voru í hamborgurunum, grísaryfjum og pylsunum okkar, sem við framleiðum sjálfir alveg frá grunni. Við snúum þeim inn í garnirnar upp á gamla mátann,“ segir Jón Örn sem segir viðskiptavinahópinn fyrst og fremst vera Íslendinga.

„Við fáum alveg eitthvað af ferðamönnum inn, en uppistaðan er Íslendingurinn. Við byrjuðum út á Granda í nóvember og það hefur verið frábær stígandi hérna. Við erum búin að vera í níu ár í Hafnarfirði og við tókum eftir því að við vorum að fá mjög mikið af fólki alls staðar að.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Úttekt á uppgjörum stóru bankanna á fyrri helmingi árs og aukningu í lánveitingum
  • Verðhækkun á sérbýli á mismunandi stöðum á landinu er borin saman en hún var mest um 45% á tveimur árum
  • Davíð Helgason, einn stofnanda Unity Technologies ræðir um fjárfestingar sínar í sprotafyrirtækjum
  • Farþegafjöldi í innanlandsflugi er undir meðaltali aldarinnar þrátt fyrir ferðamannasprenginguna
  • Umfjöllun um frábært sumar fyrir laxveiðimenn í Þverá og Kjarrá
  • Ráðgjafafyrirtæki í umhverfis- og sjálfbærnismálum skipuleggur heimsóknir í fyrirtæki
  • Elliði Vignisson ræðir um nýja starfið í Ölfus og hvers vegna hann sleppti þjóðhátíð í ár
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um hagsmunaskráningu stjórnmálamanna