Bandaríska flugfélagið American Airlines greindi frá því í dag að félaginu hafi borist tilkynning frá Qatar Airways um að félagið hygðist kaupa 10% hlut í American Airlines á opnum markaði.

Qatar Airways hyggst fjárfesta í American Airlines fyrir að minnsta kosti 808 milljónir dollara. Gengi hlutabréfa bandaríska flugfélagsins hefur hækkað um 3,1% það sem af er degi.

Qatar Airways hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni frá bandarískum samkeppnisaðilum sínum vegna þess að fyrirtækið er ríkisstyrkt. Telja samkeppnisaðilar þess að sú staðreynd veiti félaginu ósanngjarnt samkeppnisforskot á alþjóðlegum flugmarkaði.

Ef að af kaupunum verður mun Qatar Airways verða stærsti hluthafi American Airlines ásamt fjárfestingarfyrirtæki Warren Buffet, Berkshire Hathaway sem á nú 10% hlut í félaginu. Í tilkynningu American kom einnig fram að hver sá sem ætlaði sér að kaupa meira en 4,75% hlut í fyrirtækinu þyrfti að fá samþykki stjórnar félagsins.