Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að skattar á fjármálafyrirtæki séu sérstaklega íþyngjandi hér á landi. Einnig segir hún ólíklegt að innkoma fjártæknifyrirtækja sé upphafið að endi hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi.

„Mikilvægt er að íslenskur fjármálamarkaður búi við sömu reglur og skilyrði og önnur fjármálafyrirtæki sem starfa á hinum sameiginlega evrópska markaði. Því miður er það ekki raunin,“ segir Katrín í grein í tímaritinu Þjóðmál sem kom út í gær.

Í greininni fjallar Katrín um stöðu íslenskra fjármálafyrirtækja í samanburði við erlend fjármálafyrirtæki, skattaumhverfið sem þau búa við, hraða innkomu fjártæknifyrirtækja á markað og fleira sem segja má að séu áskoranir sem íslensk fjármálafyrirtækja standa frammi fyrir um þessar mundir.

„Ýmis íslensk sérákvæði eru fléttuð saman við evrópskar reglur þegar þær eru innleiddar hér á landi. Við þetta bætist að skattaumhverfi aðildarfélaga SFF er sérstaklega íþyngjandi og þekkist slíkt hvergi í Evrópu,“ segir Katrín.

„Hér á landi eru þrír skattar lagðir sérstaklega á fjármálafyrirtæki: bankaskattur, fjársýsluskattur og sérstakur fjársýsluskattur. Bankaskatturinn, sem er í raun skattlagning á innlán og skuldabréfafjármögnun fjármálafyrirtækja, er um 10 sinnum hærri hér á landi en almennt tíðkast hjá þeim Evrópulöndum sem leggja á slíkan skatt.“

Ekki upphafið að endinum

Katrín gerir innkomu fjártæknifyrirtækja einnig að umtalsefni í grein sinni. Hún segir að á sama tíma og að miklar breytingar hafa verið gerðar á regluverki fjármálamarkaða séu „aðrir undirliggjandi kraftar að móta fjármálamarkaði með slíku afli að flestir sérfræðingar telja einsýnt að fjármálaþjónusta muni taka algjörum stakkaskiptum,“ eins og hún orðar það.

„Fjármálafyrirtæki tileinkuðu sér snemma tölvutækni til að halda utan um flókinn rekstur og mikið gagnahald; netbankar og önnur þjónusta litu dagsins ljós samhliða þess að nettengingar urðu almennar og sambærileg þróun átti sér stað með tilkomu snjallsímanna,“ segir Katrín.

„En undanfarið hefur ný tegund fyrirtækja, svokölluð fjár- og tryggingatæknifyrirtæki (e. Fintech og Insurtech), rutt sér til rúms og ýmist farið í beina samkeppni við starfandi fjármálafyrirtæki um einstaka þjónustu eða farið í samstarf við starfandi fyrirtæki. […]

Þessi þróun hefur verið hröð og telja margir einsýnt að lokaáhlaupið í þeirri byltingu hefjist þegar stórfyrirtæki á borð við Apple, Amazon og Facebook fari að gera sig meira gildandi þegar kemur að fjármálaþjónustu. Einhverjir hafa talið þessa þróun vera upphafið að endi hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi.

Ólíklegt er að slíkir spádómar rætist því ekki má gleyma að fjármálafyrirtæki eru undir ströngu eftirliti og ekki víst að fjártæknifyrirtæki sjái hag sinn í því að taka upp allar þjónustuleiðir hefðbundinnar fjármálastarfsemi heldur haldi sig frekar við einstaka þætti.

Hefðbundin fjármálafyrirtæki eru vel með á nótunum og hafa unnið sjálf að framþróun fjármálatækni – annaðhvort upp á eigin spýtur eða í nánu samstarfi við nýsköpunarfyrirtæki á þessu sviði – og eru þannig virkir þátttakendur í þeim breytingum sem nú eru að eiga sér stað.“