"Steingrímur var búinn að hafa samráð við mig þannig að ég fékk tvo, þrjá daga daga til að hugsa mig um. Ég ákvað að láta slag standa," segir Katrín Jakobsdóttir í samtali við Viðskiptablaðið en hún tilkynnti fyrr í dag að hún hyggst bjóða sig fram sem formaður Vinstrihreyfingarinnar Græns framboðs. Steingrímur J. Sigfússon tilkynnti í gær að ætlar ekki að bjóða sig fram sem formaðureftir að hafa gegnt stöðunni í 14 ár.

„Það er auðvitað hver og einn með sinn stíl,“ segir Katrín aðspurð um áherslubreytingar ef svo fer að hún verði kjörinn formaður flokksins. „Við höfum unnið lengi saman í forystu flokksins,“ segir Katrín sem óttast ekki að hafa gamla formanninn í þingflokknum ef hún tekur við forystuhlutverkinu. „Eins og hann sagði sjálfur í gær þá treystir hann sér til að vera ekki aftursætisbílstjóri. Mér þykir líka mikilvægt að geta unnið með þeim sem reynsluna hafa en einnig með nýju kynslóðinni,“ segir Katrín.

Katrín segir að umræðan um skort á konum í forystuhlutverk í stjórnmálaflokkum landsins hafa vissulega ýtt við sér. Eins og flestir þekkja þá eru karlar í forystu flestra stærri stjórnmálaafla landsins. „Það er auðvitað ekki búið að kjósa mig sem formann en auðvitað ýtir það við mér þessi umræða sem hefur verið að undanförnu.“