Katrín Júlíusdóttir, fyrrum fjármála- og efnahagsráðherra, hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SFF.

„Katrín útskrifaðist með MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2016 og nam mannfræði við Háskóla Íslands frá 1995 til 1999.

Katrín var alþingismaður frá 2003 til 2016, þar af iðnaðarráðherra frá 2009 til 2012 og fjármála- og efnahagsráðherra frá 2012 til 2013. Katrín var varaformaður Samfylkingarinnar frá 2013 til 2016 og í framkvæmdastjórn flokksins frá 2000 til 2003,“ segir í fréttatilkynningunni.

Haft er eftir Katrínu að hún sé spennt að takast á við þetta nýja og krefjandi starf. „Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja er sífellt að breytast og ég hlakka til að fá að taka þátt í því að koma að verkefnum sem tengjast þeirra hagsmunamálum,” er einnig haft eftir henni.