Ekki er langt síðan settar voru reglur hér á landi sem kveða á um jafnt hlutfall kynja í stjórnum vissra fyrirtækja. Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, segist andsnúin þessari reglusetningu og telur að samkvæmt lögum sé það eignarhald sem ráði hagsmunum eigenda.

„Eigendur eiga að hafa rétt til þess að velja stjórn óháð kyni. Mér finnst kynjakvóti í raun minnkandi fyrir konur. Af hverju eru þær ekki einfaldlega metnar að verðleikum? Kynjahlutföll fara líka eftir eðli rekstrar. Ég er auðvitað mjög fylgjandi því að konur njóti sama réttar og hafi sama aðgengi, en þá vegna verðleika en ekki sökum kyns. Auðvitað á að veita sömu laun fyrir sömu störf. Slík réttindi eiga að vera til staðar – ekki einhver forréttindi,“ segir Katrín.

Hún segir einnig að hluthafar hljóti að velja hæfasta fólkið til þess að verja sína hagsmuni. „Þarna er hins vegar búið að grípa inn í og setja þessar reglur. Mér finnst það hvorki réttlátt né eðlilegt. Það er mín skoðun, en það getur þó vel verið að þetta þurfi í einhvern tíma til þess að konur njóti sannmælis. Ég er hins vegar frekar á því að þetta eigi að vera frjálst og að sá sem á hagsmunina ráði,“ segir Katrín.

Nánar er spjallað við Katrínu í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .