Katrín Olga Jóhannesdóttir var á dögunum kjörin í stjórn sprotafyrirtækisins Travelade sem síðastliðinn vetur lauk 160 milljóna króna fjármögnun sem leidd var af Crowberry Capital. Fyrir í stjórn félagsins sitja stofendur þess, Andri Heiðar Kristinsson og Hlöðver Þór Árnason, ásamt Heklu Arnardóttur frá Crowberry og Hjálmari Gíslasyni frá Investa.

Katrín Olga Jóhannesdóttir er formaður Viðskiptaráðs, situr í stjórn Advania og í fjárfestingaráði Akurs fjárfestingafélags, er varaformaður Samráðsvettvangs um aukna hagsæld og situr í háskólaráði Háskólans í Reykjavík. Katrín Olga sat áður í stjórn Icelandair Group, í bankaráði Seðlabankans, í stjórn Ölgerðinnar, Já, IcePharma og fleiri fyrirtækja. Hún starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri hjá Símanum og Skiptum, móðurfélagi Símans. Katrín Olga er BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu frá Háskólanum í Óðinsvéum.

„Það er okkur gríðarmikill styrkur að fá jafn öflugan og reynslumikinn stjórnanda til liðs við Travelade og Katrínu Olgu. Hún mun koma til með að styrka okkar hóp verulega með reynslu sinni úr fyrirtækjarekstri, stjórnarsetu og ferðaþjónustu á tímum sem eru afar mikilvægir fyrir Travelade sem undirbýr nú enn frekari vöxt á alþjóðamörkuðum," segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Travelade.

Travelade er upplýsinga- og bókunarvefur fyrir ferðamenn sem hefur vaxið ört frá því að hann fór í loftið á síðasta ári. Þjónustan er nú aðgengileg fyrir ferðamenn á leið til Íslands, Finnlands og Bosníu auk þess sem Noregur, Króatía og Slóvenía munu bætast við á næstunni. Markhópur vefsins er hin svokallaða „AirBnB kynslóð“, þ.e. fólk sem skipuleggur ferðir sínar sjálft á netinu og notast ekki við ferðaskrifstofur eða kaupir tilbúnar pakkaferðir. Andri Heiðar Kristinsson, fyrrum þróunarstjóri hjá LinkedIn í San Francisco, og Hlöðver Þór Árnason, fyrrum tæknistjóri hjá Já, stofnuðu Travelade í ársbyrjun 2017.