Í nýframlögðum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að hún hyggist beita sér fyrir því að efla traust á stjórnmálum og stjórnsýslunni. „Ríkisstjórnin mun setja sér siðareglur í upphafi kjörtímabilsins,“ segir í stjórnarsáttmálanum og virðist sem þegar sé hafin vinna að því en fleira er nefnt til sögunnar.

„Einn þáttur í því er að yfirfara reglur um hagsmunaskráningu bæði ráðherra og þingmanna með hliðsjón af ábendingum og alþjóðlegum viðmiðum. Annar þáttur er breytingar á lögum sem varða vernd uppljóstrara og umbætur í umhverfi stjórnsýslu og viðskipta, meðal annars í takt við ábendingar alþjóðastofnana.“

Annað sem nefnt er í stjórnarsáttmálanum er að lagt verði til við forsætisnefnd Alþingis að reikningar þess verði opnaðir í samræmi við það sem þegar hefur verið gert í Stjórnarráðinu.

Fyrsta ríkisstjórnin sem setti sér sérstakar siðareglur var ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2011, en í frétt Morgunblaðsins frá því fyrir tæpu ári segir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi aldrei staðfest siðareglurnar.

Forsætisráðuneytið taldi sig starfa eftir fyrri siðareglum en umboðsmaður Alþingis mat að svo væri ekki svo að eftir að ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar tók við samþykkti hún nýjar siðareglur. Síðasta ríkisstjórn, ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, breytti ekki í neinu siðareglum ríkisstjórnar Sigurðar Inga.