Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að stjórnvöld verði að bregðast við vanda á leigumarkaði og segir að setja þurfi þak á leiguverð hér á landi. Þetta kemur fram í grein sem hún skrifar í Fréttablaðið í dag.

Í greininni segir Katrín að viðbrögð stjórnvalda við ástandi á húsnæðismarkaði hafi ekki verið sannfærandi. Staðreyndin sé sú að leiguverð hafi hækkað mjög og öryggi leigjenda sé lítið. Félagsleg úrræði dugi ekki til og leigusalar hafi rúmar heimildir til að hækka leiguverð á leigjendur sína án fyrirvara.

„Nú í vor beindi ég fyrirspurn til ráðherra hvort ekki væri rétt að setja þak á leiguverð þannig að leigusölum sé leiguverð ekki í sjálfsvald sett. Slík lög hafa lengi verið í gildi í Svíþjóð og nú nýlega voru slíkar reglur settar í Berlín því að borgaryfirvöldum finnst mikilvægt að tryggja að borgin sé fyrir alla, ekki einungis elítuna,“ skrifar Katrín.

Hún segir að fátt hafi verið um svör en hún hvetji ráðherra og aðra sem komi að málum að skoða hugmyndina alvarlega. Þak yfir höfuð sé hluti af grunnþörfum mannsins og þar hafi hið opinbera skyldum að gegna.