*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 11. júlí 2012 13:50

Bankarnir máttu kaupa eignir peningamarkaðssjóða

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hefur gefið græna ljósið á útgreiðslu úr sjóðum gömlu bankanna.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kaup arftaka viðskiptabankanna þriggja á eignum peningamarkaðssjóða í þeirra eigu fyrir 82,2 milljarða króna haustið 2008 braut ekki í bága við EES-samninginn. Þetta kemur fram í niðurstöðum Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um málið sem birt var í dag.

Í tilkynningu frá ESA í morgun segir að stofnunin líti svo á að ráðstafanirnar hafi verið nauðsynlegar til að endurbyggja traust á fjármálageiranum. Úrræðin hafi verið nauðsynleg og í samræmi við meðalhóf að því marki að vernda fjárfesta fyrir enn stærra tapi á sparifé sínu. 

Fram kemur í tilkynningu að eftir fall bankanna hafi sjóðirnir verið gerðir upp og eigendur hlutdeildarskírteina fengið greitt þeirra. Þetta gerðist að hluta til með því að bankarnir keyptu eignir (að mestu leyti innlendar eignir) í eigu sjóðanna á viðskiptalegum forsendum. Eignirnar sem voru keyptar voru metnar á faglegan hátt enda þótt það hafi verið gert á óvissutímum. Verðið sem greitt var fyrir eignirnar var ákveðið af stjórnum nýju bankanna á grundvelli verðmats utanaðkomandi ráðgjafa (endurskoðunarfyrirtækja).