Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt yfirtöku Regins á fasteignafélögunum Ósvör ehf. og CFV 1 ehf. Tilkynnt var um kaupin þann 13. nóvember sl.

Kaupin miðuðust við að heildarvirði fasteignasafnanna sé 10.050 milljóna króna virði og að greitt verði fyrir kaupin í hlutafé í Reginn að nafnverði 134.500.000 hluta. Kaupin leiða til stækkunar á eignarsafni Regins í um 330 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði.

Samkeppniseftirlitið skilgreindi markað þessa máls sem leigu á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu til ótengdra aðila. Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins var það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn myndi ekki hindra virka samkeppni og myndi ekki leiða tilmyndunar markaðsráðandi stöðu.

Þá mun hann ekki leiða til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Samkeppniseftirlitið telur því að það séu ekki ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans.

Samkeppniseftirltið skoðar sérstaklega eignarhald á fasteignarfélögum. Eftirlitið segir að eignarhaldið þeirra er einsleitt, stærstu eigendur allra þeirra eru lífeyrissjóðir, fjármálafyrirtæki og aðrir fagfjárfestar. Einnig er nokkuð um það að sami hluthafinn eigi eignarhluti í fleiri en einu fyrirtæki á markaðnum og segir að slíkt eignarhald geti valdið röngum hvötum í samkeppni milli félaganna. Eftirlitið tekur sérstaklega fram að eignarhaldið, og meðferð eignarhlutarins, kunni að verða tilefni til sérstakrar rannsóknar af hálfu eftirlitsins.