Samkeppnisyfirvöld í Noregi hafa samþykkt kaup Samskipa á norska skipafélaginu Nor Lines samkvæmt frétt á vef Samskipa . Engar athugasemdir voru gerða við kaupin og eru þau ekki talin hafa hamlandi áhrif á samkeppni á norska markaðnum

Gengið var frá kaupunum í síðasta mánuði. Samkvæmt fréttinni keyptu Samskip rekstur Nor Lines í þeim tilgangi að efla starfsemi félagsins í Noregi. Nú fjórum vikum síðar liggur niðurstaða norska samkeppniseftirlitsins fyrir.

Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskip Logistics segir þetta góðar fréttir og bætir við að „ í Noregi liggi mikil tækifæri og getum við nú boðið viðskiptavinum okkar fjölbreyttara vöruframboð.“

Fyrr á þessu ári höfnuðu norsk samkeppnisyfirvöld kaupum Eimskips á Nor Lines. Var kaupunum hafnað á þeim grundvelli að þau myndu draga úr samkeppni og gera Eimskip kleift að hækka verð eða draga úr gæðum þjónustu við viðskiptavini.