Apple tilkynnti um nýja endurkaupaáætlun á eigin bréfum en sú áætlun er af dýrari gerðinni. Félagið hyggst kaupa eigin bréf fyrir 100 milljarða dala eða sem nemur 10.000 milljörðum króna. Það er næstum því á við fjórfalda landsframleiðslu Íslands í fyrra. Félagið er afar burðugt fjárhagslega og situr á 145 milljörðum dala í bankanum að því er BBC greinir frá .

Um langa hríð greiddi félagið engan arð né endurkeypti eigin bréf en þeirri stefnu var breytt árið 2012. Síðan þá hefur félagið greitt hluthöfum sínum út 275 milljarða dala í arði og með endurkaupum á eigin bréfum að því er segir í The Wall Street Journal .

Samhliða þessu greindi Apple frá uppgjöri á fyrsta ársfjórðungi ársins. Hagnaður félagsins á ársfjórðungnum hækkaði um 25% frá því fyrir ári og nam 13,8 milljörðum dala sem er besta afkoma félagsins frá upphafi á fyrsta ársfjórðungi. Heildartekjur Apple jukust um 16% og námu 61,1 milljarði dala.

Greinendur höfðu verið uggandi um afkomu fyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi vegna óvissu um hversu vel gengi að selja iPhone X síma félagsins. Í ljós kom að iPhone X var söluhæsti sími félagsins allar vikur fjórðungsins. Eftir uppgjörið hefur hlutabréfaverð Apple hækkað um 2,3%.