Eignarhlutur Birtu lífeyrissjóðs er nú kominn upp fyrir 5% mörkin, eða nánar tiltekið í 5,03% eftir kaup á 100 þúsund hlutum í Eimskipafélaginu. Gengi bréfa félagsins hefur lækkað töluvert það sem af er degi, eða um 4,12% í 57 milljóna viðskiptum þegar þetta er skrifað miðað við upplýsingar Keldunnar.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun er félagið nú að endurmeta stöðu sína eftir niðurstöðu yfirskattanefndar sem þýðir að þeir þurfa að gjaldfæra 3,4 milljóna evra, eða sem nemur 454 milljónum íslenskra króna.

Miðað við gengið nú, 174,50 krónur, er verðmæti viðskiptanna 17.450.000 krónur, og er þá heildarverðmælti þeirra 9,4 milljóna hluta sem sjóðurinn á í félaginu þá um 1.641,5 milljónir króna.

Þar með ætti lífeyrissjóðurinn að vera kominn upp fyrir Stapa lífeyrissjóð og Global Macro Absolute Return sjóðinn,  og uppúr 7. í 5. sætið yfir stærstu hluthafa í félaginu miðað við fjárfestaupplýsingar frá 8. febrúar síðastliðnum. Samherji Holding ehf. er eftir sem áður stærsti einstaki eigandinn með 27,1%, með 50,6 milljóni hluti sem eru þá að andviri 8,8 milljarða króna.

Í næstu sætum er svo þrír lífeyrissjóðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna með 14,9%, Gildi-lífeyrissjóður með 12,4% og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild með 6,5%.