Samkomulag hefur náðst um kaup Iceland Seafood á Solo Seafood ehf. sem er eigandi Icelandic Iberica á Spáni. Solo Seafood var í eigu Sjávarsýnar, félags Bjarna Ármannssonar fyrrverandi forstjóra Glitnis, FISK Seafood, Jakobs Valgeirs og Nesfisks að því er segir í tilkynningu frá Iceland Seafood til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni segir að Icelandic Iberica sé leiðandi félag á í Suður-Evrópu með 120 milljónir evra í tekjur á ári og hagnað upp á 4 milljónir evra fyrir skatta.

Með kaupunum hyggst félagið skapa burðugt lóðrétt samþætt félag á evrópskum sjávarafurðamarkaði. Sameinað félag mun þjónusta yfir 3.000 viðskiptavini í 45 löndum og starfrækja 9 vinnslustöðvar.

Samtals mun samstæðan velta meira en 400 milljónum evra og skila 10 milljónum evra í hagnað fyrir skatta að því er kemur fram í tilkynningunni.  Auk þess segir að samstæðan muni ráða yfir 10% af íslenskum kvóta og reka 8 vinnslustöðvar á Íslandi.

Greitt verður fyrir Icelandic Iberica með hlutum í sameinuðu félagi en gefnir verða út 1.047 milljón hlutir í Iceland Seafood vegna kaupanna.