Breska fyrirtækið Sumo Digital, sem starfað hefur með íslenska tölvufyrirtækinu CCP við að setja upp fyrstu persónu skotleik í EVE online heiminum mun taka yfir starfstöð CCP í Newcastle í Bretlandi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá ákvað CCP í haust að segja upp tugum starfsmanna og leggja niður starfstöð sína í Newcastle, en með samningnum verða 34 störfum bjargað að því er síðan Develop-Online greinir frá.

Sumo hefur verið að ráða fólk, en það er með starfsstöðvar í Sheffield, Nottingham og Pune á Indlandi fyrir, en ekki er ljóst hvort hópurinn muni áfram starfa í verkefnum fyrirtækisins fyrir CCP. Starfstöðin í Newcastle hefur þó unnið mikið að EVE: Valkyrie sýndarveruleikaleiknum.

Paul Portner framkvæmdastjóri hjá Sumo Digital segir þarna hafa verið um frábært tækifæri til að fá um borð í fyrirtækið góðan hóp með reynslu og þekkingu.

„Sumo Digital er frábært heimili fyrir hópinn í Newcastle,“ segir Hilmar Veigar Pétursson framkvæmdastjóri CCP Games. „Þegar við kveðjum fyrrum samstarfsmenn okkar vitum við að þeir munu gera góða hluti á nýjum stað og við getum ekki beðið eftir að sjá hvað þeir munu gera næst.“