Hjálmar Gíslason, stofnandi Data Market, ásamt fleiri hafa keypt rúmlega þriðjungs hlut í Kjarnanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kjarnanum. Vilhjálmur Þorsteinsson verður stærsti eigandinn með 13,7% hlut en Hjálmar á í gegnum félag sitt 8,1% hlut. Hjálmar verður formaður nýrrar stjórnar Kjarnans og munu ýmsir sérfræðingar sitja í sérstöku ráðgjafaráði Kjarnans. Guðrún Inga Ingólfsdóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson munu einnig sitja í stjórn félagsins.

Hjalti Harðarson, framkvæmdastjóri Kjarnans, segir að með aðkomu nýrra fjárfesta verði hægt að sækja fram af miklum krafti næstu misserin.

Hjálmar Gíslason, stjórnarformaður Kjarnans, segir tækifærin fjölmörg. „Á rétt rúmu ári hefur þessum hópi tekist að byggja upp öflugan, gagnrýninn og greinandi fjölmiðil og vörumerki sem fólk treystir. Við sjáum fjölmörg tækifæri til að byggja á þessum grunni, ekki síst í þeim breytingum sem bæði fjölmiðla- og auglýsingamarkaðurinn eru nú að ganga í gegnum. Það fylgir því mikið frelsi og hagkvæmni einbeita sér að stafrænni miðlun en vera ekki bundinn við ljósvaka- eða prentmiðla. Á sama tíma er íslenski markaðurinn frekar óþroskaður þegar kemur að netinu, sérstaklega hvað varðar auglýsingamiðlun. Ég hef sagt Kjarnateyminu það ítrekað í þessu ferli að ef ég væri að hugsa um að stofna fyrirtæki í dag, yrði það líklega fjölmiðlafyrirtæki.“

Eigendur Kjarnans að lokinni hlutafjáraukningu eru: Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar (13,7 prósent), Magnús Halldórsson (13,0 prósent), Þórður Snær Júlíusson (13,0 prósent), Ægir Þór Eysteinsson (11,5 prósent), Gísli Jóhann Eysteinsson (11,5 prósent), Hjalti Harðarson (11,5 prósent), HG80 ehf. í eigu Hjálmars Gíslasonar (8,1 prósent), Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar (6,3 prósent), Ágúst Ólafur Ágústsson (5,0 prósent), Jónas Reynir Gunnarsson (3,2 prósent) og Birgir Þór Harðason (3,2 prósent).