Nú hefur Icelandair skrifað undir samninga um kaup á tveimur Boeing 767-300 flugvélum. Þegar á félagið tvær slíkar vélar sem verða teknar í notkun í mánuðinum. Þær munu koma til landsins á næstu mánuðum og verða innréttaðar í stíl við núverandi vélar Icelandair. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Samtals munu vélarnar tvær taka 524 farþega - 262 hvor - en Boeing 757-200 vélar fyrirtækisins geta borið 183 farþega í einu. Í tilkynningu segir að fjárfestingin hafi verið gerð til þess að sjá til þess að tryggja áframhaldandi innri vöxt fyrirtækisins.

Gert er ráð fyrir að breytingum á vélunum verði lokið snemma árs 2017 og áætlað er að fjórar Boeing 767-300 vélar verði notaðar í leiðakerfum félagsins árið 2017. Kaupverð flugvélanna tveggja er trúnaðarmál en ef tekið er mið af kaupverði nýrrar slíkrar vélar frá Boeing kostar hún rúmlega 197 milljónir Bandaríkjadala eða rúmlega 23,8 milljarða króna.