Félagið íslenskar sjávarafurðir, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, heldur áfram að bæta við eignarhlut sinn í útgáfufélagi Morgunblaðsins.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í sumar þá lagði félagið til stærstan hluta 200 milljóna aukningar á hlutafé félagsins. Fór þá eignarhlutur félagsins úr rúmlega 9% upp í 14,15% í einkahlutafélaginu Þórsmörk sem er eigandi Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

Nú hefur Lýsi, sem átti 1,69% hlut í Þórsmörk farið úr hluthafahópnum en Íslenskar sjávarafurðir hafa aukið við hlut sinn upp í 15,84% með kaupum á eignarhlutnum að því er Fréttablaðið greinir frá.

Stærsti eigandi félagsins er enn Ramses II, sem er í eigu Eyþórs Arnalds, en það á 22,87% hlut, en þar á eftir kemur Hlynur A. með 16,5%. Það félag er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum, en hún er aðaleigandi Ísfélagsins hf., sem á sjálft 13,4% hlut.