Kauphöllin í London (London Stock Exchange) og kauphöllin í Frankfurt (Deutsche Börse AG) hafa nú samþykkt sameiningu. Eftir sameiningu verður kauphöllin sú stærsta í Evrópu, en sameiningin er metin á um 30 milljarða Bandaríkjadala, eða 3.800 milljarða króna.

Kauphallirnar munu fá hlutabréf í sameinaðri kauphöll (all share merger). Kauphöllin í London mun fá 45,6% og sú þýska mun eiga 54,4%.

Kauphallirnar tilkynntu í síðasta mánuði að þær hefðu hafið sameiningarviðræður. Stuttu eftir tilkynninguna tilkynnti Intercontinental Exchange, sem m.a. rekur New York Stock Exchange (NYSE) að hún væri einnig að íhuga tilboð í kauphöllina í London.