*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Innlent 22. janúar 2019 14:18

Kauphöllin hlynnt sölu bankanna

Í umsögn um Hvítbók um fjármálakerfið vill Kauphöllin skattalegan hvata til hlutabréfakaupa og heimildir til stöðutöku.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í umsögn Kauphallarinnar um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið segist hún í stórum dráttum sammála þeim sjö tillögum sem koma þar fram, þó hún vilji sjá nánari útfærslu á sumum þeirra áður en tekur afstöðu í þeim. 

Kauphöllinn vill í stuttu máli selja bankana, auka þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði, t.d. með skattalegum hvata, vill auka heimildir sem og eftirlit með stöðutökum, þar með talið til lífeyrissjóða, það auki skilvirkni verðmyndunar. Jafnframt vill kauphöllinn að langtímafjárfestar hafi frelsi til að koma inn á markaðinn.

Í fréttatilkynningu Kauphallarinnar segir:

 • 1)      Kauphöllin styður að að frelsi einstaklinga við ávöxtun viðbótarlífeyrissparnaðar sé aukið. 
 • 2)      Varðandi tillögu um að fjárfestingum lífeyrissjóðanna verði komið í faðmlengdarfjarlægð inn í fjárfestingarsjóði, telur Kauphöllin að útfæra þurfi þessa tillögu nánar áður en hægt er að taka afstöðu til hennar
 • 3)      Kauphöllin styður tillögu um skýran aðskilnað á milli eignastýringar og reksturs bankastofnana.
 • 4)      Kauphöllin telur að aðstæður í dag gefi tilefni til að leyfa frjálsa för erlendra langtímafjárfesta inn á íslenska fjármálamarkaðinn, án bindiskyldu. Teljum þó æskilegt að til sé staðar sé úrræði á borð við bindiskyldu á erlent innflæði á skuldabréfamarkað, en að úrræðið sé notað sparlega og aðeins þegar aðstæður krefjast. 
 • 5)      Kauphöllin tekur undir þau sjónarmið að efla eigi viðskiptavakt bankanna þriggja með auknum heimildum fyrir stöðutökur.
 • 6)      Kauphöllin er sammála því að gefa fjárfestingarsjóðum almennt aukið frelsi til stöðutöku, s.s. með því að taka skortstöður. Við höfum lengi talað fyrir nauðsyn þess að auka skoðanaskipti á markaði með þessum hætti þar sem heimildir lífeyrissjóða og verðbréfasjóða til verðbréfalána eru auknar enda felst mikilvæg fjárfestavernd í skilvirkri verðmyndun. Auk þess felst í verðbréfalánum tækifæri fyrir sjóðina til að afla viðbótartekna. 
 • 7)      Lítil bein þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði er áhyggjuefni en hún hefur mikið að segja fyrir virkni hlutabréfamarkaðar. Reynslan erlendis sýnir að hún getur einkum haft áhrif á fjármögnunarmöguleika lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Að mati Kauphallarinnar gætu hóflegir skattalegir hvatar haft mikla þýðingu fyrir uppbyggingu fjölbreytts atvinnulífs og áframhaldandi þróun hlutabréfamarkaðar hér á landi. 

Kauphöllin vill jafnframt selja bankana, og segir hún að hagsmunum ríkissjóðs, heimila og fyrirtækja sé best borgið með því að stærstum hluta bankakerfisins sé komið í dreift eignarhald breiðs hóps fjárfesta. 

Besta leiðin til að tryggja dreift eignarhald er að mati Kauphallarinnar útboð (nokkur yfir eitthvert árabil) sem beint væri bæði að innlendum og erlendum fjárfestum í aðdraganda og kjölfar skráningar á markað. 

Reynsla frá nágrannalöndum okkar sýni jafnframt að aukinn fjöldi fjárfesta og meiri fjölbreytni þátttakenda greiði fyrir aðgengi lítilla fyrirtækja að fjármögnun á hlutabréfamarkaði, en mikil þátttaka almennings þar hefur skipt sköpum. 

Segja hlutverk hlutabréfamarkaðar þvert á viðteknar skoðanir

Mikill fjöldi smárra fyrirtækja á hlutabréfamörkuðum annarra Norðurlanda gengur þvert á viðteknar skoðanir hér á landi um að hlutverk hlutabréfamarkaðar sé ekki að hlúa að litlum vaxtarfyrirtækjum og lýsir vel þeim ónýttu tækifærum sem eru til staðar og nýta mætti með aðkomu fleiri aðila að fjárfestingarákvörðunum. 

Smá og millistór fyrirtæki gegna lykilhlutverki í sköpun nýrra og áhugaverðra starfa og því er sérstaklega brýnt að liðka fyrir fjármögnun þeirra eins og kostur er á að mati Kauphallarinnar.

Gæti komist í hæsta gæðaflokk

Fyrirtækið vísar jafnframt í niðurstöðu úttektar FTSE Russell á íslenska hlutabréfamarkaðnum sem sýni fram á að raunsætt er að stefna á að hann komist í hæsta gæðaflokk alþjóðlegra vísitölufyrirtækja innan fárra ára ef rétt er haldið á spilunum. 

Þær leiðir sem nefndar eru í Hvítbókinni til að efla íslenskan verðbréfamarkað, að teknu tilliti til framangreindra ábendinga Kauphallarinnar, ásamt sölu á hlutum í bönkunum og skráningu þeirra á hlutabréfamarkað gætu leitt til þess að íslenskur hlutabréfamarkaður yrði settur í flokk með þeim mörkuðum sem fremst standa áður en áratugur er liðinn. 

Það hefði í för með sér gerbreytta aðstöðu íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar, sérstaklega meðal alþjóðlegra fjárfesta. Jafnframt gæti það aukið marktækt samkeppni í íslensku fjármálakerfi, samfélaginu öllu til heilla. 

Kauphöllin hvetur því til þess að tafarlaust verði ráðist í nánari útfærslu á framangreindum leiðum með það fyrir augum að setja fram aðgerðaáætlun um að koma íslenskum hlutabréfamarkaði í fremsta flokk á komandi árum. 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

 • - Viðskiptablaðið sent heim
 • - Vefaðgangur að vb.is
 • - Frjáls verslun sent heim
 • - Fiskifréttir sent heim