Áhættuálag á skuldir íslenska ríkisins virðist hafa hækkað verulega í dag. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hefur hækkað og gengi hlutabréfa lækkað. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þetta vegna pólitískrar óvissu.

Ávöxtunarkrafa bæði verðtryggðra og óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur hækkað mikið, eða um allt að 22 punkta, í talsverðum viðskiptum. Krafa RIKB 19 flokksins stendur í 6,15 prósentum þegar þetta er skrifað og hefur hækkað um næstum því hálft prósentustig frá því á sunnudag. Krafa RIKB 31 flokksins hefur hækkað um 32 punkta frá því á sunnudag þegar þetta skrifað. Ávöxtunarkrafa allra óverðtryggðra flokka er nú um eða yfir sex prósentum.

Þá eru miklar og breiðar lækkanir á gengi hlutabréfa. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,55% þegar þetta er skrifað. Icelandair hefur lækkað um 2,27% í 466 milljóna króna viðskiptum. N1 hefur hins vegar lækkað mest eða um 3,85% í 233 milljón króna viðskiptum.