N1 er eitt stærsta verslunar- og þjónustufyrirtæki hérlendis. Fyrirtækið er í 11. sæti á lista Viðskiptablaðsins og Keldunnar yfir Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri árið 2017.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir að lykillinn að stöðu N1 sé og hafi verið mjög sterkt net þjónustustöðva um allt land og kraftmikil þjónusta hjá frábæru starfsfólki félagins til margra ára. „Styrkur félagsins liggur í þjónustu um allt land þar sem við þjónustum fólk og fyrirtæki og leggjum mikla áherslu á umhverfismál og samfélagslega ábyrgð um land allt,“ segir hann.

Samkeppnin við Costco lærdómsrík

Eldsneytisfyrirtæki á Íslandi urðu óþægilega vör við tilkomu bandaríska verslunarrisans Costco á íslenskan markað síðastliðið sumar og var N1 þar engin undantekning. Eggert Þór segir að opnun Costco hafði verið lærdómsríkt ferli og hafi að sjálfsögðu haft áhrif á þann markað sem skiptir N1 mestu, en hann lætur þó engan bilbug á sér finna.

„Við gáfum út afkomuspá í haust þar sem gert er ráð fyrir að EBITDA félagsins verði 3.500- 3.600 milljónir króna að undanskildum kostnaði við fyrirhuguð kaup N1 á Festi. Kaupin á því fyrirtæki eru mikilvægasta verkefni sem fyrirtækið stóð frammi fyrir á nýliðnu ári,“ segir hann.

Það er ekki ofmælt að um umfangsmikið verkefni sé að ræða enda rekur Festi rekur 27 verslanir undir merkjum Krónunnar, ELKO, Nóatún, Kjarval og Kr, auk þess að eiga og reka Bakkann vöruhótel. Festi á sömuleiðis 18 fasteignir að flatarmáli yfir 71 þúsund fermetrar, sem eru annaðhvort í leigu til verslana félagsins eða til þriðja aðila. Heildarvelta Festar var rúmir 39 milljarðar króna á rekstrarárinu sem lauk í febrúarlok 2017.

Mikil áhersla á kostnaðaraðhald

„Rekstrarkostnaður er það sem við fókusum mikið á, enda það sem við getum stjórnað, en tekjur eru eitthvað sem við stjórnum ekki á samkeppnismarkaði og því leggjum við mikla áherslu á kostnaðaraðhald,“ segir Eggert Þór spurður um rekstrarreikning fyrirtækisins.

„Síðan eru umsvif í hagkerfinu og umferð á þjóðvegum landsins eitthvað sem við fylgjumst mikið með þar sem félagið er næmt fyrir breytingum á þessum stærðum. Einnig má benda á gengi krónunnar og þróun á olíuverði á heimsmarkaði.“

Eggert Þór segir að í nánustu framtíð N1 blasi við það verðuga verkefni að takast á við hina miklu framþróun sem er að verða í verslun og þjónustu hérlendis. „Við setjum mikinn fókus á þann vettvang næstu árin og reynum að horfa með bjartsýni til þeirra tækifæra sem Ísland hefur upp á að bjóða til gera N1 að enn betra fyrirtæki en það er í dag.“

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .