Óli Jón Hertervig deildarstjóri eignaumsýslu Reykjavíkurborgar segir að borgin muni selja nýkeyptar eignir í Völvufelli og Arnarfelli í Breiðholti fyrir lok árs ef vel gengur. Fasteignakaupin muni kosta borgina hátt í milljarð sem borgin þurfti að taka lán fyrir, en ætlunin er að gera þær upp að einhverju leiti og breyta skipulagi á svæðinu að því er Morgunblaðið segir frá.

„Það er frekar dapurlegt ástand á þessu húsnæði,“ segir Óli Jón en um er að ræða tvo aflagða verslunarkjarna í Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11 og 13-21. „Við munum selja eignirnar einhverjum sem eru tilbúnir í að fara í uppbyggingu á húsnæðinu.“

Kaupin voru samþykkt í borgarráði nýlega af meirihluta Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, stærsta flokksins í stjórnarandstöðu lögðust gegn kaupunum.

Segja aðkomu borgarinnar óþarfa og ekki eiga að vera í forgangi

Oddviti Sjálfstæðismanna, Eyþór Arnalds segir það hins vegar ekki hlutverk borgarinnar að kaupa fasteignir og gera þær upp.
„Það væri miklu nær að veita heimildir til uppbyggingar á svæðinu,“ bendir Eyþór á og segir það dæmi um bága fjárhagsstöðu borgarinnar að taka hefði þurft lán fyrir kaupunum sem kosta borgina 752 milljónir króna.

„Ef það væri gert er ég viss um að það væru ýmis fasteignafélög spennt fyrir því að taka við boltanum. Borgin velur aðra aðferð; í stað þess að rýmka byggingarheimildir strax kaupir hún húsnæðið og ætlar svo að rýmka heimildir.“

Guðlaug S. Sigurðardóttir fjármálastjóri eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar segir að ekki hafi verið tekið lán sérstaklega fyrir kaupunum þó að biðja hefði þurft um heimild til að auka lánsfjáráætlun ársins vegna þeirra. Eyþór segir þessi kaup ekki hafa átt að vera í forgangi. „Borgin á fullt í fangi með sín verkefni og ætti ekki að fara sjálf út í að sinna þróunarverkefnum.“