Kaupþing hefur kært til fjármálaráðuneytisins niðurstöðu Ársreikningaskrár um hvort hann megi gera upp í evrum. Stjórn Kaupþings tilkynnti í haust að bankinn hygðist taka upp evru um nýliðin áramót. Kaupþing myndi þá færa bókhald og skila ársreikningum í evrum. Straumur Burðarás tók upp nýjan gjaldmiðil í vor og óskaði Kaupþing eftir því að gera slíkt hið sama. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Ársreikningarskrá heldur utan um og birtir ársreikninga hlutafélaga. Samkvæmt reglugerð sem sett var snemma á síðasta ári ber Seðlabankanum að gefa umsögn um hvort fyrirtæki megi gera upp í annarri mynt en íslenskri.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að Ársreikningaskrá hafi ekki beinlínis hafnað beiðni Kaupþings heldur sett henni skilyrði sem bankinn telji ekki við unað. Kaupþing hafi því kært niðurstöðuna til fjármálaráðuneytisins. Talsmaður Kaupþings staðfesti í dag að bankinn biði eftir niðurstöðu ráðuneytisins.